top of page
Search

Að vera afburða greindur og með mikinn kvíða.



Ég hef skrifað um það áður að ég hef alla tíð síðan ég man eftir mér verið með kvíða, en það sem ég hef minna skrifað eða talað um er að ég er víst afburða greindur. Það eru svo sem bara tvö netpróf sem ég hef tekið, annað á íslensku en hitt á ensku, en ég fékk háar tölur út úr hvoru tveggja.

En ég áttaði mig ekki á þessu fyrr en eftir að ég lenti í rúminu í tæpan mánuð vegna þunglyndis, en það þunglyndi hafði ég skapað mér sjálfur með alltof miklu álagi, þekkjandi ekki inná kvíðann sem ég hef alltaf verið með og mögulegar afleiðingar hans.

Ég fékk nefnilega verulegan áhuga á sálfræði og öllum málefnum heilans í framhaldi af þessu, því að komast að því að ég væri með mikinn kvíða og kvíði gæti leitt til þunglyndis útskýrði svo svakalega margt fyrir mér varðandi sjálfan mig og reyndar marga aðra.

Mér fannst ég reyndar alltaf hafa verið frekar snjall og hef alltaf átt verulega auðvelt með að læra.

En án þess að vilja hljóma eins og dæmigerður besserwisser þá fannst mér ég oftast eiga mun auðveldara með að hugsa út í öll horn, eins og ég hef viljað kalla það, á meðan mér fannst flestir aðrir horfa meira bara beint áfram á sína hugmynd af hlutunum.

En þegar kvíðinn lagði mig stundum í rúmið með líkamlega verki eins og höfuðverki, magaverki, niðurgang o.fl. þá fékk ég að heyra að þetta gengi ekki og ég yrði að drullast til að mæta í vinnuna og að ég væri bara letingi og aumingi(þessi orð komu samt ekki frá foreldrum mínum) hafði það að sjálfsögðu áhrif og ég efaðist verulega um mig og mitt ágæti.

Þannig varð kvíðinn til þess að ég þorði aldrei að athuga eða skoða á einhvern hátt hvort ég væri eins greindur og mig grunaði.

En eftir að hafa farið til sálfræðings í framhaldi af þunglyndis strandi mínu þá fékk ég loksins einhverja útskýringar hvers vegna ég var eins og ég var.

Þarna gat ég loksins farið að vinna meðvitað í hausnum á mér. Fram að því var ég líklega í afneitun um andlega erfiðleika mína, enda voru flestir þeir sem ég vildi helst apa eftir grjótharðir karlar sem höfðu alla sína ævi farið allt á hnefanum, eins og mér finnst rétt að kalla það, og þeir karlar voru ekki að fara að viðurkenna að þeir hefðu nokkurn tíma verið eitthvað andlega illa staddir, því það þýddi uppgjöf og það sem mögulega verra var að þeir þyrftu að viðurkenna að þeir hefðu haft rangt fyrir sér og mögulega ekki alltaf breytt rétt.

Enda hef ég komist að því á þessum bráðum tuttugu árum sem ég hef verið að vinna markvisst í hausnum á mér að það að viðurkenna vanmátt sinn, breyta um skoðun og biðja afsökunar er eitthvað sem heilinn á rosalega erfitt með. Við erum nefnilega öllum stundum að þjálfa heilann í okkur í að fylgja okkar ákvörðunum og skoðunum, en á meðan finnst okkur aðrar leiðir og skoðanir líka algjörlega fáránlegar.


En aftur að afburða greind.

Ég hef alla tíð mjög fljótt orðið leiður á störfum og verkefnum sem hafa verið sett fyrir mig eða ég ráðið mig í, en þrátt fyrir það þá hef ég áhuga á nánast öllu og öllum. Það er einmitt vegna getu minnar til að læra og skilja hluti mjög fljótt og vel sem ég verð fljótt leiður því þá hef ég ekkert fleira að læra eða skilja á þeim stað.

Ég hef að sjálfsögðu í leiðinni fengið þau viðbrögð hjá fólki að ég endist svo stutt í vinnu að það taki því ekki að ráða mig, en sem betur fer fjölgar þeim alltaf sem átta sig á öllum kostunum við mjög víðtæka reynslu.

Ég hef aldrei nefnt afburða greind mína til að hjálpa mér að fá vinnu eða til að reyna að sannfæra fólk þegar mig hefur langað að breyta til, enda hefur mér fundist fólk breytast gagnvart mér í þessi örfáu skipti sem ég hef sagt einhverjum frá því, og það finnst mér alltaf óþægilegt og hefur frekar valdið mér kvíða þegar upp er staðið frekar en að fólk átti sig á kostum þess að hafa mig með í ráðum.

Þegar ég hef sagt frá greindarvísitölu minni þá hefur mér til dæmis verið ætlað að nýta greind mína til að spila með fólk með einhvers konar stjórn á þeim í huga ásamt því að ég sé skilinn útundan í samræðum og öðru því fólki finnst èg alltaf þykist vita allt best. Mér hefur þótt þetta ótrúlega vont og kvíðavaldandi á stundum, enda reyni ég alltaf að sýna öllu og öllum fulla virðingu og sárnar að sjálfsögðu þegar mér er sýnd svona illgirni og vanvirðing. Enda myndi ég sjálfur aldrei koma meðvitað svona illa fram við aðra.


Hvers vegna á ég að fela mig og minn huga frekar en aðrir sem passa ekki í kassana?

Samkynhneigð eru loksins að verða að fullu samþykkt í okkar samfélagi.

Það er ekkert verulega langt síðan að fólk varð fyrir áreiti fyrir að vera heiðingjar á Íslandi en núna er loksins samþykkt að fólk ráði sinni trú eða trúleysi.

Loksins er fólk sem finnst það hafa fæðst í röngum líkama samþykkt.

Að vera með kvíða er loksins að einhverju leiti samþykkt(en kvíðinn segir reyndar að það sé lang því frá 😱🤣 )

Þunglyndi og aðrir sjúkdómar hugans eru sem betur fer alltaf að verða samþykktari.

Ég gæti áreiðanlega nefnt einhverja minnihlutahópa sem hafa ekki að fullu verið samþykktir ennþá en læt þetta duga.

Er afburða greind kannski dæmd út frá bíómyndum og sögnum um afburða greind örfárra glæpamanna?


Ef tölfræðin er rétt þá eru eingöngu um 380 manns á öllu Íslandi með jafn háa eða hærri "vandræða" tölu og ég. Á ég þá að skammast mín í mínum minnihlutahóp?


Það er mjög eðlilegt fyrir fólk með háa greindarvísitölu að hafa mörg járn í eldinum, enda er alls ekkert ögrandi að hafa lítið að gera og veldur það þá auðveldlega leiða sem getur leitt til ofhugsunar, pirrings, þunglyndis og fleiri andlegra erfiðleika.


Á 36 ára starfsferli þá hef ég unnið á 36 stöðum.

Ég tel unglingavinnuna á Hellissandi þegar ég var tólf ára ekki með en önnur sumarstörf eftir það 😊

Ég hef bæði meðvitað og vegna minna aðstæðna sleppt því að fara í háskóla því mér finnst tímasóun fyrir mig og þá kennara sem þar ættu að kenna mér að ég setjist á skólabekk. Enda efast ég stórlega um að nokkur háskólakennari hafi nokkurn tíma starfað við jafn fjölbreytt og mörg mismunandi störf og ég eða lært af því að handleika hlutina ásamt því að skilja til fulls hvað þarf frá grunni til afurðar.

Núna hljóma ég enn einu sinni eins og besserwisser, en ég er ekki að skrifa allt þetta til að sýna öðrum fram á að ég þurfi að mennta mig meira, heldur reyna að útskýra mig aðeins og hvað ég hef lært gífurlega margt í öllum störfum mínum sem nýtist mér svo í öllu því sem ég tek mér fyrir hendur.

Auðvitað kann ég engan veginn allt eða veit allt, en margir virðast telja það þegar ég sé þörf á að segja einhverjum til. Ég segi nefnilega eingöngu til þegar ég hef vit á því sem verið er að gera.

Úff hvað mér finnst ég allt í einu leiðinlegur… en það er einmitt það sem kvíðinn segir mér og hefur verulega oft gert og stoppað mig í að koma góðu til skila. Ég og minn kvíði erum nefnilega líka með fordóma gagnvart besserwisserum, en þessi orð mín eru kannski líka mest ætluð mér og kvíða kvikindinu svo við förum mögulega loksins að leyfa útsjónarsama, skynsama, afburða klára og velviljaða snillingnum í hausnum á mér að njóta sín 😘


En hversu margir af þessum 380 ætli að séu að reyna að nýta þá getu sína virkilega til góðs fyrir allt og alla?








 
 
 

Comentários


  • Facebook
  • Twitter
  • LinkedIn

©2021 by Sjalfstraust.is. Proudly created with Wix.com

bottom of page