top of page
Search

Lífið er yndislegt.


Eins oft og hugurinn getur reynt að draga mig í ömurlega neikvæðar holur kvíða eða þunglyndis, þá gríp ég hann og vísa þannig hugsunum ítrekað á dyr. Stundum gengur það vel en ekki alveg alltaf. Ég hef til dæmis oft hitt fólk sem býr á, eða hefur verið á sama stað og ég, en hefur upplifað nákvæmlega sama veður og ég, en á allt annan hátt. Oftast að mínu mati neikvæðari hátt, því sumir eiga það til að kvarta t.d. undan rigningunni þann daginn. En í langflestum tilfellum sem það gerist er búið að vera milt og þurrt, jafnvel sól, mikinn meirihluta dagsins. En samt kvarta margir og tala um að það sé bara alltaf rigning. Ég á það þá til að benda á að það hafi eingöngu rignt í kannski hálftíma þann daginn en annars verið þurrt og fínt veður. Á sama hátt virðist sumt fólk líta á megnið af sinni fortíð. Við munum og dveljum alltof oft í kannski fimm prósent af lífi okkar sem liðið er, en það eru einmitt þungu vondu og erfiðu prósentin. En á meðan gefum við okkur nánast engan tíma í að hugsa um 95% lífs okkar, sem var oft á tíðum dásamlegt 😁😘

Auðvitað dett ég líka af og til í neikvæðnina, enda hvernig er annað hægt þegar til dæmis fréttir eru 95% neikvæðar og dynja á okkur allan sólarhringinn. En eitt ráðið mitt, af fjölmörgum, til að halda í jákvæðnina er að hlusta ekki á fréttir.

Enn annað ráð sem ég nota er að grípa neikvæðu hugsanirnar um fortíðina og bera þær saman við þær jákvæðu. Og niðurstaðan er alltaf að jákvæðu minningarnar eru af 95% lífsins sem liðið er. (Auðvitað hafa alls ekki allir haft það eins gott og ég, en þið skiljið vonandi samt hvað ég á við.)

Ég er til dæmis tví fráskilin.

Auðvitað er ég ekki tví fráskilinn af því að lífið hafi alltaf verið eins og gömul dömubinda auglýsing, endalaust svífandi um blómaengi og prumpandi glimmeri, en 95% tímans leið mér allavega innilega vel. (Tók samt reyndar aldrei eftir glimmeri í nærbuxunum mínum 🤔)

Og ég hef og ætla meðal annars þar að muna allar dásamlegu jákvæðu stundirnar með þeim góðu konum sem notuðu sinn dýrmæta tíma með mér frekar en öðrum. Enda finnst mér hreinlega út í hött fyrir mig og hræðilega uppáþrengjandi kvíðann minn að leyfa honum að skemma of mörg augnablik í þessu dásamlega lífi sem ég get átt á meðan mér tekst að fylgja meðvitaðri ákvörðun minni um að vera jákvæður.


Það er nefnilega hægt að taka meðvitaða ákvörðun um að sjá það jákvæða í lífinu og brosa. Það getur verið erfitt að breyta úr neikvæðni yfir í jákvæðni og tekið fjölmargar tilraunir og tíma, en það er svo sannarlega þess virði þegar upp er staðið 😘


Lífið er yndislegt 🤘❤️



ree
 
 
 

Comments


  • Facebook
  • Twitter
  • LinkedIn

©2021 by Sjalfstraust.is. Proudly created with Wix.com

bottom of page