top of page
Search

Einelti á eigin skinni!

Ég sleppi hérna nöfnum og beinum tengingum við fólk og staði til að vernda margt gott fólk sem tengist þessum skrifum mínum ekki á nokkurn hátt.


Ég var einu sinni í félagsskap þar sem við hittumst mjög oft. Þar líkaði mér mjög vel við alla aðila og taldi mig fljótt eiga orðið vini í hópnum.

Svo varð mér á að vera alltof ákveðin á mínum skoðunum gagnvart einum aðilanum í samræðum og sá fljótt að hann var alls ekki sáttur við mig svo ég bað hann afsökunar í skilaboðum strax eftir hittinginn og fékk þá svar um að allt væri í góðu. Næst þegar ég hitti hann baðst ég aftur afsökunar og allt virtist vera í lagi okkar á milli aftur. Ég hafði talið þennan aðila vera vin minn miðað við fyrri samskipti okkar, en eftir þetta virtist allt breytast. Eitthvert skipti sá ég að ekki var allt í lagi hjá honum og spurði nokkru sinnum hvað væri að og hvort ég gæti hjálpað, en við síðustu spurningu mína brást hann frekar illa við svo ég dró mig alveg í hlé gagnvart honum. Svo liðu mánuðir og við hvern hitting fann ég fyrir meiri og meiri kulda og útilokun frá honum. Dálítið seinna var ég svo beðin að hitta þennan aðila ásamt umsjónarmanni á staðnum þar sem aðilinn var að biðjast afsökunar á framkomu sinni og benti á að hann ætti bara svo ofboðslega erfitt með að tjá sig og þess vegna hefðu samskiptin farið í þann hnút. Ég fyrirgaf það um leið og ég áttaði mig á að hann hafði greinilega ekki í raun og veru fyrirgefið mér þarna löngu áður fyrir mína óþörfu ákveðni og ég bað á móti enn einu sinni innilega afsökunar á því upphlaupi mínu.

Allt virtist í lagi í einhvern tíma eftir þetta en það var víst bara lognið á undan storminum!


Svo fór ég að verða var við skrýtnari framkomu frá honum ásamt öðrum aðilum sem umgengust hann meira og oftar en ég og ekki leið á löngu þar til þessi sami aðili var farin að tala illa um mig algjörlega að ástæðulausu svo ég heyrði til og í framhaldinu að hreyta ítrekað í mig ókvæðisorðum við ýmis tækifæri.

Ég tók eftir því að öðrum í hópnum leið alls ekki vel að heyra í honum en honum virtist vera nákvæmlega sama eða þá ómögulega taka eftir því hvaða áhrif ummæli hans hefðu á alla í kringum hann.

Þarna fannst mér ég ekki getað þagað lengur og ræddi þetta því við annann umsjónarmann á staðnum. Sá virtist engan vegin gera sér grein fyrir alvarleika málsins og vildi bara að við myndum sættast og gleyma þessu. Ég sagðist alveg vera tilbúin í það þrátt fyrir allt og taldi að málið væri þá úr sögunni. En nokkrum dögum seinna kom aðilinn til mín þar sem hann náði mér einum og jós yfir mig ýmsum niðrandi fullyrðingum t.d. um að ég fyrirlíti fólk og væri Narcsisti (Sjálfsupphafningar-persónuleikaröskun sem kallast narcissism á ýmsum erlendum málum einkennist af því að vera yfirmáta sjálfumglaður og upptekinn af sjálfum sér, því að telja sjálfsagt að aðdáun og athygli annarra beinist að manni og að maður eigi allt annað og betra skilið en Pétur og Páll. Narcissism heitir eftir hinni sjálfumglöðu grísku hetju Narcissusi sem ekki gat fengið nóg af sinni eigin spegilmynd.) Þetta sagði hann að væri almennt um talað í félagsskapnum en þegar ég spurði hvort þetta væri mögulega eingöngu frá honum sjálfum komið svaraði hann með mjög óskýru stami. Ég sagði honum þá að ef ég væri svona hræðilegur þá væri réttast fyrir hann að ræða það beint við næsta umsjónarmann en það sagðist hann alls ekki ætla að gera. Ég sagði þá að ég yrði þá að fara og ræða við hann aftur um þessi ömurlegu samskipti okkar því svona gætu samskiptin alls ekki gengið áfram, og ég gerði það. Umsjónarmaðurinn gerði sér samt ennþá engan veginn grein fyrir alvarleika málsins og allt fór á sama veg og áður.

Ég sá að mér var engan veginn vært í þessum félagsskap lengur því ekki vildi ég fara að splundra félagsskapnum af þessum ástæðum, ég hætti því þrátt fyrir að líða yndislega mestmegnis á staðnum, og hætti um leið að umgangast marga frábæra vini og félaga reglulega.


En eftir að hafa áttað mig á hversu mjög þessi aðili hefur eitrað mína persónu gagnvart fyrrum vinum mínum í þessum félagsskap þá fannst mér ég knúin til að nota þá tjáningarleið mína að skrifa um málið og létta þannig aðeins á vanlíðan minni gagnvart svona illri framkomu í minn garð.


Með þessum skrifum er ég ekki að biðja um vorkunn eða að reyna að setja mig í fórnarlambs stöðu, heldur eingöngu að létta á mér og benda á að miðaldra hvítur karlmaður getur alveg lent í ömurlegu einelti og bognað undan því, og enn frekar að benda á að við VERÐUM að tala saman þegar eitthvað bjátar á því öðruvísi getum við fest í vítahring okkar eigin ranghugmynda og skapað okkur sjálfum og fjöldanum öllum af fólki í kringum okkur óbærilegum andlegum sársauka.


Með jákvæðni, virðingu, samkennd og bjartsýni verður allt auðveldara.

Bergur.

ree

 
 
 

Comments


  • Facebook
  • Twitter
  • LinkedIn

©2021 by Sjalfstraust.is. Proudly created with Wix.com

bottom of page