
Framhald.
- Bergur Jonsson
- Apr 29, 2021
- 2 min read
Mér var boðið af skólastjóranum mínum að sleppa níunda bekk sem þá var síðasti bekkur grunnskóla, vegna þess að ég var talinn eiga í erfiðleikum með námið, en ég sagði honum að það kæmi ekki til greina, því eftir að hafa hangið í skóla(því það var það sem ég gerði mest af, að hanga þar)öll þessi ár þá ætlaði ég sko að klára þetta síðasta ár!
Skólakerfið allt var nefnilega enganvegin að átta sig á því hversu auðvelt var fyrir mig að læra og það virtist bara vera einn kennari sem hafði grun um það og það staðfestist þegar Ásta Huld vinkona mín vildi veðja við mig um að ég myndi ekki ná ákveðnu stærðfræðiprófi, hún vildi veðja upp á pylsu og kók en ég sagðist samþykkja veðmálið ef hún byði samloku og kókómjólk. Og þannig fórum við í prófið.
Loksins gerði ég allt prófið en ekki bara rétt rúmlega helminginn, því í þetta skiptið í stað þess að tryggja að ég væri bara að ná prófi fyrir skólann og foreldra mína þá var ég að vinna veðmál upp á samloku og kókómjólk. Ég skilaði prófinu þrátt fyrir það með þeim fyrstu, en það sem ég vissi ekki var að Þór kennari vissi af veðmálinu og hann tók strax prófið mitt og fór yfir það, ég sá það og beið því í dyrunum þangað til hann barði í borðið og sagði "ég vissi að þú gætir þetta helvítið þitt" , þá hafði ég að sjálfsögðu fengið tíu, en það sem meira máli skipti fyrir mér, samloku og kókómjólk. Ég átti nefnilega svona auðvelt með að læra og skilja en skólakerfið ögraði mér bara ekki nokkurn hlut, enda komst ég að því eftir að ég varð fullorðin og átti tímabil þar sem sjálfstraust mitt var gott að ég er með mjög háa greind.
Ég trúði því af og til að ég væri letingi og aumingi en þá greip ég þrjóskuna mína traustataki, setti hausinn undir mig og dæmdi alla þá bölvaða vitleysinga sem töluðu þannig niður til mín, enda hefði ég áreiðanlega leiðst á villigötur ef ég hefði ekki ákveðið að fólk sem þannig talaði væru vitleysingar og ég líklega gáfaðasti maður í heimi. En auðvitað var ég aldrei gáfaðasti maður í heimi, frekar svona áttundi gáfaðasti, nei grín 🤣 Ég þurfti þetta sjálfhverfa tímabil til að brotna ekki undan dómum samfélagsins! En síðan eru liðin mörg ár.





Líst vel á þessar hugleiðingar þínar.
Við megum ekki láta brjóta okkur, megum bogna en ekki brotna.