top of page
Search

Hvað er töff og hvað er að vera töff?

Updated: Feb 28, 2021

Hljóðskrá

https://www.dropbox.com/s/4yrkj6alrbwk4g2/Hva%C3%B0%20er%20t%C3%B6ff.m4a?dl=0



Er töff að vera í þeim fötum sem eru í tísku hverju sinni?

Er töff að vera með þá hárgreiðslu sem er í tísku hverju sinni, eða hvað sem er annað sem flestir sjá til dæmis í samfélagsmiðlum?

Eru samfélagsmiðlastjörnur töff?

Er töff að vera á blönduðum eða rafmagnsbíl?

Viljum við vera töff?

Ég gæti velt fyrir mér margfalt fleiri svona spurningum en ætla frekar að nefna það sem mér finnst töff.

Mér finnst til dæmis töff að nota fötin mín sem allra lengst þó það sé eitthvað farið að sjá á þeim, og eins að þvo þau ekki oftar en nauðsynlegt er án þess þó að vera illa lyktandi eða að þau óhreinki út frá sér.

Mér finnst töff að vera á gömlum bílum sem ég nota mína fáu aura frekar í viðhald á heldur en að farga þeim ef eitthvað bilar og kaupa nýja. Enda er förgun og framleiðsla bíla og annara tækja mjög mengandi, ekkert síður en notkun þeirra. Þess vegna þurfum við að finna hentugt eldsneyti á þá nothæfu bíla sem enn eru í umferð í stað þeirra jarðefna eldsneyta sem við höfum verið að nota, og mér finnst töff að menn( og auðvitað eru konur líka menn) séu að reyna að finna leiðir að því marki.

Svo er töff að standa með minni máttar í stað þess að reyna að græða á óförum annara eins og allt fjármálasukk á jörðinni reynir að gera.

Mér finnst töff að nota allan mat sem við kaupum upp til agna, og ennþá meira töff að rækta matinn sem allra mest sjálfur, þrátt fyrir að hafa allt of lítið gert af því.

Mér finnst töff að nota eins lítið og mögulegt er af öllum þeim vörum sem við teljum okkur þurfa, eins og til dæmis snyrtivörum(án þess þó að lykta illa eða vera sóði á einhvern hátt), skrauti, og ýmsu öðru.

Mér finnst töff að gefast aldrei upp á að berjast fyrir réttlæti í heiminum.

Mér finnst töff að geta haldið ró minni þegar eitthvað bjátar á, og sérstaklega þegar einhver er að reyna að æsa mig upp. Ég hafði alls ekki þessa sjálfstjórn á yngri árum, sem þarf til að ráða við sjálfan sig, heldur þjálfaði ég það upp í mér á löngum tíma, og það finnst mér töff að hafa getað.

Ég hef líka þjálfað mig upp í að finna eitthvað jákvætt út úr öllum mínum upplifunum, sama hversu neikvæðar upplifanirnar hafa mögulega verið í upphafi. Þannig leyfi ég t.d. erfiðu eða jafnvel vondu fólki ekki að skilja mig eftir neikvæðan, heldur brosi yfir þeim lærdómi sem ég græddi á þannig kynnum, og ef mér tekst ekki að finna neitt annað, þá tek ég það með mér að ég vil ekki líkjast því fólki, og mér finnst töff að ráða þannig við mig og koma alltaf að lokum jákvæður úr hverri lífsreynslu.

Ég hef ekki átt auðvelt með alla þessa hugarþjálfun, reyndar víðs fjarri því.

Ég hef verið með ævilangan kvíða á bakinu sem hefur nokkru sinnum slegið mig rækilega niður, og eitt skipti í erfitt þunglyndi. En eins og með allt annað í mínu lífi þá finnst mér þessar upplifanir, eins og aðrar, jákvæðar, því þær hafa kennt mér aukna samkennd, virðingu, þolinmæði og mikið aukinn skilning á að ég tel andlegum erfiðleikum öllu fólki í kringum mig, ásamt mörgu fleiru jákvæðu, og það finnst mér töff.

En ég hef líka alltaf verið forvitin um alla mögulega hluti, ekki þó til að geta talað illa um nokkurn mann eða nokkurn hlut, heldur til að reyna að skilja hvers vegna og hvernig allt virkar. Og þannig hef ég þjálfað upp hjá mér, að ég tel, mikla rökhugsun, og það finnst mér töff.

Að hafa rök fyrir skoðunum og flestu öðru sem við viljum fara eftir eða notast við í okkar lífi er nefnilega því sem næst nauðsynlegt að mínu mati.

Sumt er samt mjög erfitt að færa rök fyrir, eins og til dæmis tilfinningar, en þar hefur mér líka tekist að ráða á einhvern hátt við mínar tilfinningar með því að fara eftir þeim rökum að mér líður á allan hátt betur með jákvæðum tilfinningum, og það finnst mér rökrétt og töff.

Rök snúast nefnilega um að finna leiðir til að styðja við t.d. fullyrðingu, þannig að mín rök fyrir því að vera jákvæður eru meðal annars þau að ég finn til aukinnar vellíðunnar verandi jákvæður, það kemur mun betur í veg fyrir að kvíðinn taki völdin heldur en neikvæðni, og lætur fólki líða betur nálægt mér og margt fleira. Svo getur fólk komið með rök gegn jákvæðninni, en ég tel mig geta hrakið öll eða allavega flest þau mögulegu rök, og það finnst mér töff.

Auðvitað geta ekki allir alltaf verið sammála um allt þrátt fyrir rökfærslur, enda vil ég endilega hitta fólk sem er ekki sammála mér um allt því þannig fæ ég vonandi fleiri sjónarhorn á allt mögulegt og jafnvel betri rök en ég hafði fundið, og þá væntanlega skipt um skoðun, því að vera fær um að hlusta á rök og skipta um skoðun í framhaldi finnst mér töff.

Ég vil nefnilega að við séum alls ekki öll eins eða með sömu skoðanir þrátt fyrir að ég sé mjög sáttur við mínar skoðanir, þar sem ég hef mest alla tíð verið að endurskoða þær, og mun að sjálfsögðu halda því áfram.


 
 
 

Comments


  • Facebook
  • Twitter
  • LinkedIn

©2021 by Sjalfstraust.is. Proudly created with Wix.com

bottom of page