top of page
Search

Hvernig vilt þú láta koma fram við þig?


Ertu alveg viss um að þú komir fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig?


Þegar þú breytir um tón milli manneskja sem þú ert að tala við hvað ert þú þá að gera?


Finnst þér ástæða til að tala við fatlaða með öðrum tón en þá sem eru ófatlaðir?


Finnst þér ástæða til að tala við börn með öðrum tón en unglinga eða fullorðna?


Ef þér finnst þú sýna öllum sömu virðingu en breytir samt um tón milli manneskja hvers vegna breytir þú þá um tón?


Ég er að sjálfsögðu ekki að tala um umræðuefnið þegar ég tala um mismunandi tón, enda ætlast ég ekki til þess að allir hafi þekkingu, vilja eða áhuga á hvaða umræðuefnið sem er.


Þá velti ég fyrir mér hvernig þér líður þegar þú verður var/vör við að fólk notar annan tón við þig en aðra?


Auðvitað getum við ekki endalaust látið okkur líka við alla en ef við viljum fá virðingu þá er nauðsynlegt að sýna öðrum virðingu.


Hvað þýðir svo orðið "virðing"?

Samkvæmt orðabók er það "viðurkenning og gott álit sem maður ávinnur sér frá öðrum, heiður"


En er þar með rétt og eðlilegt að virða fólk ekki til að byrja með og þá ekki fyrr en fólk hefur gert eitthvað sem þú telur merkilegt?


Ef þú sýnir fólki ekki virðingu ertu þá að sýna vanvirðingu?


Samhugur er líka orð sem rétt er að velta fyrir sér. Sýnir maður bara samhug þegar einhver á í alvarlegum erfiðleikum?


Í orðabók er samhugur skýrður sem "eining eða samstaða". Sýnum við þá eingöngu samhug þegar við erum algjörlega sammála einhverju?


Eða sýnum við samhug þegar við erum að einhverju leyti sammála einhverju?


Enn eitt orðið sem mig langar að velta fyrir mér er sjálfstæði. Erum við bara sjálfstæð ef við virðum ekki aðra eða sínum ekki samhug?


Erum við eingöngu sjálfstæð ef við erum engum háð?


Eða erum við sjálfstæð þrátt fyrir skuldir við aðra og þrátt fyrir að hafa sömu skoðanir og margir aðrir?


Ég ætla að þykjast svo sjálfstæður að ég ætla að koma einhverjum af mínum skoðunum og svörum við þessum spurningum hérna á framfæri.


Þar sem ég reyni alltaf að sýna öðrum fulla virðingu og samhug frá upphafi kynna þá ætlast ég nánast alltaf til þess að mér sé sýnd full virðing frá upphafi. Auðvitað verður mér á eins og öllum öðrum en þá er ég líka nokkuð góður í því orðið að átta mig á því að ég sýndi ekki fulla virðingu og bið þá innilegrar afsökunar á mínum mistökum. Á yngri árum og jafnvel töluvert fram á fullorðinsár var ég ekki nægilega góður í að viðurkenna mistök mín og fór þá stundum í þann gír að kenna öðrum bara um og þumbast svo áfram með algjörlega ósamþykkt samviskubit á herðunum. En með innilegri fyrirgefningu til annarra og mín sjálfs, ásamt fullri ábyrgð á mínum eigin mistökum, þá hefur sjálfstraust mitt og andleg líðan undanfarin ár létt mér og kvíða mínum lífið svo afgerandi að ég er að fullu tilbúin að hjálpa öðrum á betri stað.


Ég á það til að breyta um tón við fólk, en í öllum tilfellum er það þegar eitthvað hefur fokið í mig og ég get ekki annað en látið reiði mína í ljós til að leggja áherslu á orð mín. En það hefur líka stundum fokið í mig algjörlega að óþörfu eða vegna misskilnings og þá bið ég alltaf afsökunar þegar ég veit að ég gerði mistök.


Svo tel ég nánast óþarfa að nefna það þegar ég breyti alveg um rödd, en ég ætla nú samt að nefna það því þá er ég að setja mig í það sem mér finnst skemmtileg hlutverk og langar að athuga hvort ég nái fram brosi hjá öðrum í kringum mig. Og þar eru margar raddir Ladda fremstar 😁


Ég tala með sama tón við allar manneskjur, enda eru allar manneskjur jafn mikilvægar og merkilegar.

Það geri ég að sjálfsögðu í tengslum við lífsgildi mitt að ég sé ekki merkilegri en nokkur önnur manneskja, enda þykist ég vita að allar manneskjur finna fyrir tónbreytingunni frá öðrum til sín og velta(mögulega alveg ómeðvitað) því fyrir sér hvers vegna og komast þá líklegast að þeirri niðurstöðu að viðkomandi finnist þau lægra sett í samfélaginu en aðrir.

Ég hef tekið eftir þessu víða og finnst það hreinlega sorglegt.

Smábörn ættu líka að heyra sömu orð og sama tón frá okkur frá upphafi því það er einmitt tónninn sem þau skilja en ekki orðin sem sögð eru. Með því sem sumir kalla smábarna talið sitt er verið að flækja verulega fyrir börnunum að læra það mál sem ætlast er til að þau tali í framtíðinni, svo þegar tónninn breytist úr smábarna talinu og yfir í nokkuð venjulegt tal og tón þá hljómar allt mögulega fyrir þeim eins og sé verið að skamma þau í samanburði.

Við höldum nefnilega oft að við séum alltaf að gera hlutina rétt og fallega bara vegna þess að svona hefur þetta alltaf verið gert og það er mjög erfitt fyrir marga að breyta hugsun og venjum sínum vegna þess.


Virðing er svo fyrir mér það sem allir hljóta strax sem fruma á leiðinni í heiminn. Þar með er ég ekki að segja að ég vilji ekki samþykkja fóstureyðingar, enda er það alltaf ákvörðun hverra foreldra fyrir sig hvort þau séu tilbúin að leyfa frumunni að verða að manneskju.

En aftur að öllum þeim frumum sem verða manneskju(eða bara lífveru) þá eiga þær alla mína virðingu frá upphafi til enda, en svo eru það mögulega einhverjar gjörðir þeirra á lífsferlinum sem ég get ekki alltaf borið fulla virðingu fyrir.

Ég vil samt alltaf finna leiðir til að gefa fólki tækifæri að nýju þrátt fyrir að þau gætu áður hafað gert stór mistök.

Mér finnst sorglegt að hugsa til þess hversu margir hafa jafnvel frá barnæsku aldrei fengið almennileg tækifæri til að blómstra á sínum forsendum.


Ef þið hafið ekki tengt samhug og sjálfstæði við allt sem ég hef nú þegar pikkað inn á þetta skjal þá hefur mér mistekist og biðst afsökunar á því með vinsamlegri beiðni um að fá útskýringar á því hvar mér varð á.


Með vinsemd og virðingu

Bergur 😘

ree



 
 
 

Comments


  • Facebook
  • Twitter
  • LinkedIn

©2021 by Sjalfstraust.is. Proudly created with Wix.com

bottom of page