top of page
Search

Meira um mig.

Ég hef alltaf reynt að finna hvað mér hefur liðið vel með og gera það að framtíðar markmiðum mínum, auðvitað hef ég gleymt mér og klúðrað eins og ég hef áður skrifað um og ótal klúðrin mín hafa ekki síður kennt mér. En ég hef til dæmis alltaf staðið með þeim sem sumir vilja kalla minni máttar og þó ég hafi klúðrað þar eins og annarsstaðar þá er það eitt af þeim atriðum sem ég hef allt mitt líf haldið í. Ég var þrátt fyrir, eða mögulega vegna kvíða, alltaf tilbúin sem barn og alla tíð síðan að stoppa ósanngirni og stoppaði einn og sér oft einelti í grunnskóla, löngu áður en orðið einelti var notað yfir þá framkomu. Enda var ég alla mína grunnskólatíð með þeim stærstu og bæði andlega og líkamlega sterkustu og passaði og stoppaði líka eldri nemendur. Eitt besta hrós sem ég hef fengið um ævina kom t.d. frá þremur árum yngri einhverfum manni sem þá var um þrítugt þegar hann var að segja þáverandi liðveislu sinni hvað ég hafi alltaf verið góður við hann og passað upp á hann, en það var einmitt í öll skiptin sem ég var að stoppa aðra við að leggja hann í einelti. Ég gaf mér líka tíma eftir að hafa stoppað eineltið til að fylgja honum í burt frá þeim aðilum sem leið svo illa með sjálfa sig að þeim fannst einhver ástæða til að níðast á yndislegum hægfara einhverfum strák, en á þeim tíma vissi ég heldur ekki hvað einhverfa var.

En á sama tíma og í raun alla tíð hef ég verið erfiður við allt það sem hægt er að kalla yfirvald, því ég hafði ákveðið tólf eða þrettán ára að það væri engin manneskja í heiminum merkilegri en ég, en ég væri heldur ekki merkilegri en nokkur önnur manneskja á jörðinni. Það var oft erfitt að lifa nákvæmlega eftir þessari ákvörðun en ég átti samt til að byrja með auðveldara með að fara eftir fyrrihlutanum og þess vegna átti ég mjög erfitt með að láta mér lynda við yfirmenn eða bara fólk almennt sem sýndi mér ekki virðingu. En ég var líka mjög ákveðin, þrjóskur og stundum þver, en mín túlkun á muninum á þrjóskur og þver er að þrjóskur er að standa fast á sínu þrátt fyrir mótlæti en vera tilbúin að breyta ef rök sýna fram á annað, en þver er að standa algjörlega fastur á sínu þrátt fyrir skýr rök á móti sinni staðfestu. Enda hef ég sem betur fer sjaldan verið þver 😁

Það er einmitt þessi þörf mín til að reyna að láta öðrum líða vel með sjálfa sig sem fékk mig til að byrja með síðuna https://www.sjalfstraust.is því ég get ekki fylgst með eða vitað hvernig öllum öðrum líður en ef fólk telur sig mögulega þurfa hjálp og er tilbúið að leita eftir hjálp þá getur það mögulega fundið síðuna og þá mögulega séð einhverja punkta sem ég gæti hjálpað þeim með til heilbrigðs og góðs sjálfstrausts.

En það eru alls ekki bara þeir sem telja sig vera minni máttar og reyna oft þess vegna að læðast með veggjum sem þurfa hjálp til heilbrigðs sjálfstrausts, heldur jafnvel enn frekar þeir sem hafa talið sig vera að hífa sig upp með því að níðast á öðrum, því þar er ekkert í gangi sem ég get kallað heilbrigt og gott sjálfstraust heldur mikið misskilin minnimáttarkennd. En það er oftast mun erfiðara að fá þá aðila til að átta sig á og sætta sig við villu síns vegar.

En munið bara að ég er til staðar fyrir hvern sem er sem telur sig geta nýtt mína hjálp ❤

ree

 
 
 

Comments


  • Facebook
  • Twitter
  • LinkedIn

©2021 by Sjalfstraust.is. Proudly created with Wix.com

bottom of page