top of page
Search

Mig langar ekki að auglýsa, en ég má víst ekki heldur fela mig!

Hljóðskrá, opna með YouTube eða öðru forriti.



Í upphafi ætlaði ég ekkert að auglýsa þessa síðu eða koma henni sérstaklega á framfæri, en hverjum næ ég að hjálpa ef örfáir vita af mér eða síðunni og þeir örfáu eru kannski ekkert hjálpar þurfi.

Þess vegna ætla ég núna að láta vita af https://www.sjalfstraust.is víðar.


Ég reyni að skrifa niður mínar hugleiðingar á blog hluta síðunnar sem oftast og hugmyndin var að skrifa eitthvað á hverjum degi, en svo fannst mér það óþarfa kvöð þannig að ég skrifa bara við tækifæri. Svo reyni ég að taka upp hljóðskrá við hvert blog fyrir þá sem finnst betra að hlusta frekar en að lesa. En ég fylgi ekki nógu þétt eftir með hljóðskránar þannig að ef þær vantar þá endilega rukkið mig um þær með því að skrifa undir blogið.

En ef margir hafa svo samband við mig þá fer tíminn meira í samtöl og blog-unum fækkar.


Ég hef heyrt sálfræðinga og geðlækna hafa áhyggjur af "ómenntuðum" einstaklingum sem hafa verið að bjóða upp á andlega hjálp. En er í raun hættulegt fyrir ómenntaða að bjóða upp á aðstoð þegar fólki líður illa eða er eitthvað óöruggt með sig sjálft?

Ég hef sjálfur farið til fimm mismunandi sálfræðinga af mismunandi ástæðum, einn var ekki að ná tengslum við mig eða mitt verkefni á þeim tíma, en allir hinir veittu mér og mínum verkefnum athygli og reyndu að skilja mig. En það er einmitt stærsta atriðið við sálræna hjálp, það er að hlusta með fullri virðingu og reyna að gera sér grein fyrir í hvaða sporum viðmælandinn er hverju sinni án allra fordóma. Og að því leyti stóðu fjórir af fimm minna sálfræðinga sig mjög vel og allir kvöddu mig með orðunum, þú veist alveg hvað þú ert að gera og ert alveg á réttri leið, haltu því bara áfram.

Það er nefnilega svo ótrúlega oft sem við efumst um okkur og okkar persónu á svo margan hátt en þurfum svo bara einhvern sem við getum treyst til að tala við og oftast hljóma hlutirnir alltaf betur og auðveldar um leið og við þorum að segja þá upphátt.

Og þarf fólk nauðsynlega að ganga í háskóla í fimm ár til að geta hlustað fordómalaust og með fullri virðingu?

Það finnst mér sko alls ekki, en ef þér finnst það þá er líklega óþarfi fyrir þig að nota meiri tíma frá þér við að lesa eitthvað frá mér.

En ég er heldur ekki að halda því fram að ég geti allt sem löggiltir sálfræðingar og geðlæknar geta, enda geta ég ekki ávísað lyfjum, en ég hef ofboðslega mikla og víðtæka reynslu af margvíslegum málum hugans og líkamans og finnst svo erfitt að vita til þess að fjöldinn allur af fólki efast á einhvern hátt um sjálft sig en finnst það mögulega ekki nægilega stórt verkefni til að leita til sálfræðings. Og þar get ég mögulega hjálpað ef þú þorir að taka sénsinn og treysta mér.

Svona til smá útskýringar þá kalla ég flest sem gera þarf verkefni því það er jákvætt og gott að hafa verkefni fyrir stafni, á meðan það sem sumir kalla vandamál er að mínu mati frekar neikvætt og á það til að gera verkefnin erfiðari.

Ég verð að koma því aftur að að ég er ekki að þessu til að hagnast, þó að margir eigi mögulega erfitt með að trúa því í samfélagi okkar mannanna í dag. En ég hef bara svo margt gott að bjóða að mér finnst það sóun að nýta það ekki til góðs fyrir fleiri en bara mína nánustu. Enda er oft erfitt að fara með sum verkefni hugans til sinna nánustu.

Þannig að, ekki hafa áhyggjur af því að þurfa að greiða mér fyrir mína aðstoð, en ef þú einhvern tíma getur og treystir þér til þá endilega bjóddu fram þína aðstoð til þeirra sem mögulega þurfa með fullri virðingu og fordómalaust.


Þið sem lásuð eða hlustuðuð til enda og finnst ennþá að ég gæti hjálpað einhverjum, þið megið endilega deila þessum pósti.


Með vinsemd og virðingu.

Bergur.

 
 
 

Comments


  • Facebook
  • Twitter
  • LinkedIn

©2021 by Sjalfstraust.is. Proudly created with Wix.com

bottom of page