Mér finnst ég þurfa að tala um hreinskilni!
- Bergur Jonsson
- Aug 18, 2021
- 2 min read
Er ég hreinskilinn ef ég hef einhverja ákveðna skoðun og læt hana í ljós? Að mínu mati já, algjörlega!
En þarf ég endilega að láta mína skoðun í ljós við alla? Nei, en ef ég er spurður eða aðstæður kalla á það að mínu mati þá er ég eingöngu hreinskilinn ef ég læt mína skoðun skýrt í ljós.
Að vera hreinskilinn þýðir ekki að ég eigi að koma illa fram við fólk, heldur á ég að koma hlutum hreinskilnislega til skila án þess að særa eða láta fólki líða illa. Því að gera aldrei öðrum það sem þú vilt ekki að aðrir geri þér gildir alltaf.
En hvað skil ég svo eftir mig ef ég spyr ekki hreinskilnislega og eða svara ekki hreinskilnislega? Fullt af vangaveltum og mögulega kvíða hjá þeim sem er ekki alveg sama um hvað öðrum finnst.
Er ég dónalegur ef ég spyr spurninga sem öðrum þykja óþægilegar?
Nei, enda er meining mín aldrei að láta öðrum líða illa, heldur að reyna að hafa allt uppi á borðinu og skilja ekkert eftir fyrir kvíðann til að mjólka!
En munið það líka að það getur verið svakalega erfitt að vera fullkomlega hreinskilinn ef við erum ekki með heilbrigt sjálfstraust. Og það er ekki síður erfitt að vera fullkomlega hreinskilinn ef við teljum okkur hafa eitthvað að fela fyrir öðrum!
Þess vegna er það alltaf mín meining að við segjum alltaf satt, alveg sama hve sannleikurinn getur verið erfiður eða vandræðalegur, því lygar eru alltaf mun verri og ljótari en sannleikurinn og lygar koma alltaf í ljós þó síðar verði og hver vill hafa vantraust hangandi yfir sér alla ævi jafnvel bara útaf saklausri lýgi.
Ég hef alveg logið, svikið og stolið og er á engan hátt saklaus, en ég hef reynt eins og ég mögulega get að biðjast afsökunar á slíku undanfarin ár og leiðrétta allt sem miður hefur farið af mínum völdum. Og ég er mjög sáttur við mig og mitt heilbrigða sjálfstraust í dag.
Hvað vilt þú gera fyrir þitt heilbrigða sjálfstraust?
Ég get hjálpað ef þú vilt.
Með vinsemd og virðingu.
Bergur 😘





Comments