top of page
Search

Sjálfsvíg.

Í október 2018 hringdi dóttir mín í mig grátandi og tilkynnti mér að við hefðum misst enn einn unga manninn í sjálfsvígi. Þá var það tveggja barna faðir og vinur minn sem tók sitt eigið líf.


Við erum öll ennþá mjög viðkvæm fyrir svona fréttum eftir að unnusti elstu dóttir okkar tók þessa hræðilegu ákvörðun að taka sitt líf í apríl 2017.

Ég man vel hvað ég var alltaf reiður við fólk sem þetta gerði þegar ég var yngri, ég fór ekki á jarðarfarir þeirra og var ekkert að fela þær skoðanir mínar að þetta væri aumingjaskapur og lang mesta eigingirni sem hægt væri að sýna. Og þess vegna kom ekki til greina að ég sýndi þeim einhverja virðingu með því að mæta á þeirra jarðarfarir t.d.

En svo lenti ég bara sjálfur árið 2002 á þeim stað að hugsa um að fremja sjálfsmorð!

Og það breytti ansi mörgu hjá alvitra (að ég taldi á þeim tíma) dómharða mér.

Það var nefnilega upplifun mín á þeim tíma, í þau augnablik sem ég hugsaði mér að drepa mig, að það yrðu allir mun hamingjusamari og ánægðari með lífið ef ég væri dáinn, það væri allt léttara fyrir alla mína nánustu og í raun bara alla, því ég gerði ekkert nema ógagn og léti fólki í kringum mig líða illa. Þetta var svo innilega rétt hugsun að mínu mati á þessum tíma að ekki nokkur rök eða skynsemi hefði getað breytt því. Þetta er nefnilega svo innileg og rétt upplifun á þeim tíma að þetta er hið eina rétta.

Svona upplifði ég þessi augnablik, sem voru sem betur fer alltaf bara augnablik þar sem sjálfsvígshugsanir gripu mig.

En ég var svo heppinn að mitt þunglyndi var bara tengt of miklu álagi og að ég var óhamingjusamur á margan hátt, þannig að hugsanir til barnanna minna og möguleika á að breyta aðstæðum mínum náðu alltaf að hífa mig upp úr sjálfsvígshugsunum. Sem betur fer!

Ég náði svo með hjálp lyfja til að byrja með og sálfræðings að finna mig og hamingjuna mína aftur og minnka svo álagið á mig (sem ég hafði að einhverju leyti skapað mér sjálfur í upphafi).

Núna orðið tel ég mig eiga góðan möguleika á að setja mig í spor þeirra sem lenda í þessu hræðilega hyldýpi sem sjálfsvígshugsanir eru, og verð alltaf jafn sorgmæddur þegar fólk nær sér ekki upp úr þeim og tekur að lokum sitt líf. En auðvitað hafa ástæður og erfiðleikar þeirra sem við höfum misst í sjálfsvígum verið mismunandi, en alltaf skal ég hugsa þegar þessar ömurlegu fréttir berast, “ég vildi óska að ég hefði getað hjálpað áður en það varð of seint”.

En það að vera svona illa staddur og langt leiddur er einmitt oftast vegna þess að manneskjur, og þá sérstaklega karlmenn, þora ekki eða hreinlega geta ekki sagt frá líðan sinni til að fá svo hjálp áður en illa fer.

Auðvitað er hjálparsími og netspjall eins og 1717 hjá Rauða krossinum til staðar, en það getur líka verið átak að hafa samband þangað, sem á að sjálfsögðu ekki að vera neitt átak, en andlega veik manneskja miklar svoleiðis samtal ótrúlega fyrir sér.

En ég gat á sínum tíma ekki losað mig við allt álagið á mig með því að fækka mínum verkefnum og auðvelda önnur, en þegar rofaði til hjá mér tókst mér að meta mín verkefni og flokka þau í númer 1. áríðandi sem ég get gert eitthvað í, 2. minna áríðandi sem ég get sinnt seinna og 3. Það sem ég get ekkert gert í og verð því að ná að sleppa takinu og hugsa ekkert um.

Ég gæti talið upp fjöldann allan af heilaæfingum en læt þessi orð duga í kvöld.

Munið að þið eruð aldrei alveg ein, ég gæti mögulega hjálpað 😘

ree

 
 
 

Comments


  • Facebook
  • Twitter
  • LinkedIn

©2021 by Sjalfstraust.is. Proudly created with Wix.com

bottom of page