top of page
Search

"Vinur minn" kvíðinn!

Ég vaknaði í morgun og enn einu sinni var kvíðahnútur í maganum á mér. Ég er fyrir löngu síðan búin að átta mig á að kvíðatilfinningin byrjar í maganum á mér, en ég er ekki ennþá búin að átta mig almennilega á því hvort magaverkur hjá mér er af einhverskonar magapest eða kvíða, því tilfinningin er oft nákvæmlega eins. Þess vegna geri ég oft eins og í morgun, þegar ég hef tíma til, að velta aðeins fyrir mér hvort mig sé að kvíða einhverju og þá hverju? Sjaldnast er það bara eitt atriði heldur fleiri og þá mjög mismunandi mörg. Núna fann ég út að það eru í raun mörg verkefni sem ég þarf að leysa því ég var búin að ætla mér að gera margt en svo bættum við hjónin við okkur frekar stóru verkefni núna í sumar sem var að flytja, kaupa okkur hús í öðrum bæ og hefja störf á nýjum stað. Fyrir voru ennþá óleyst ýmis verkefni þannig að með öllum þessum viðbótum hefur kvíðinn náð að finna sér greiða leið að mér. En ég kann nú orðið ansi vel á þann mjög svo lúmska ferðafélaga minn, ég þarf bara að horfa í kringum mig eins og ég gerði í morgun og átta mig á að bölvaður ódámurinn hefur laumað sér í bakpokann minn og dregið þangað með sér eins margar auka byrgðar og hann hefur mögulega getað. Þetta gerir hann alltaf þegar hann getur og reynir svo að sannfæra mig um að hann verði nauðsynlega að vera í bölvuðum bakpokanum.

En ég ræð. Og núna fer ég að rífa af honum byrðarnar og flokka þær eftir mikilvægi, skil svo eftir eitt verkefni í bakpokanum og segi kvíðakvikindinu að hypja sig og koma ekki aftur nema ég bjóði honum sérstaklega, því ég geri það nefnilega einstaka sinnum því við sérstakar aðstæður á hann það til að vera góður og hjálpsamur vinur.


Ég er alveg með það á hreinu að mér tækist ekki að vinna svona með þessum "vini" mínum kvíðanum nema með mínu heilbrigða sjálfstrausti.


Með vinsemd og virðingu.

Bergur.


ree

 
 
 

Comments


  • Facebook
  • Twitter
  • LinkedIn

©2021 by Sjalfstraust.is. Proudly created with Wix.com

bottom of page