Við erum ekki sjúkdómar okkar eða greiningar.
- Bergur Jonsson
- Jun 24, 2021
- 2 min read
Einu sinni réði ég mann sem var greindur með geðhvörf til starfa á næturvaktir við öryggisþjónustu. Við ræddum vel saman um hvort hann treysti sér í starfið og þá sérstaklega hvort hann teldi möguleika á því að næturvaktir og einvera gæti nokkuð farið illa í hann. Hann var alveg með það á hreinu að hann treysti sér í það og væri á góðum stað andlega með sjálfan sig. Hann lofaði líka að heyra strax í mér ef honum færi eitthvað að líða illa með þetta. En það fyrsta sem ég frétti um viðbrögð fólks varðandi þessa ráðningu mína var frá systur hans sem var víst bara yfir sig hneyksluð á því að ég væri að ráða geðsjúkling í svona ábyrgðarstöðu. Hann stóð sig fullkomlega í sínu starfi þetta sumar og ég hefði alltaf ráðið hann aftur ef hann hefði viljað það, en fordómar mínir snéru líka mun frekar að systur hans sem ég hef ekki lítið sömu augum síðan, en ég myndi samt alveg gefa henni séns líka ef ég þyrfti því það eiga að mínu mati alltaf allir að fá séns nánast sama hvað hefur bjátaði á.
Ég hef alls ekki alltaf verið fordómalaus en ef ég met það rétt sjálfur þá hef ég aldrei þekkt neinn með minni fordóma en mig og þá hef ég alltaf staðið 100 prósent með þeim sem hafa talist til minni máttar, mínir fordómar hafa nefnilega alltaf frekar snúið að þeim sem telja sig á einhvern hátt yfir aðra hafna. En ég hef samt alltaf líka viljað gefa yfirmönnum, yfirvöldum eða hverju öðru sem kalla vill sig yfir, sinn séns, alveg þangað til ég verð var við að nýðst sé á minni máttar. Þá verð ég gjarnan það sem ég kýs að kalla "ljóti kallinn".
Ég vann til dæmis í fiski þegar ég var 17 ára og þar var samkynhneigður karlmaður sem var orðin smitaður af Hiv veirunni líka að vinna, hann var mest á hausaranum, en fyrir þá sem vita ekki hvað hausari er þá er það vél með flugbeitt hringlótt hnífsblöð sem snúast á miklum hraða og skera þannig hausinn af fiskinum. Það vildi enginn vinna við hliðina á honum þarna þannig að ég varð bara ansi hneykslaður og sagði að ég skildi gera það. Ég hafði á þeim tíma ekki þekkt neina manneskju sem væri samkynhneigð enda var það mikið feimnismál á þeim tíma. En ég vissi samt einhvern veginn að ég hefði ekkert að óttast varðandi kynhneigð hans og ég vissi líka þá greinilega betur en allir aðrir á staðnum hvernig Hiv smitaðist, og þrátt fyrir að það gæti smitast með blóði þá voru svo ofboðslega litlar líkur á að það gæti gerst þarna að mér fannst ég þurfa að sýna honum virðingu og í leiðinni að sýna hinu fólkinu hversu ranga leið það væri að velja þarna. Við unnum saman hlið við hlið í marga daga og hann var fínn náungi, það eina sem mér fannst óþægilegt við hann var hvað hann var andfúll og ég þurfti ekkert að koma nálægt honum til að finna það. Ég frétti það svo seinna að hann lifði bara um það bil eitt ár í viðbót og dó þá úr afleiðingum Hiv.





Comments