top of page
Search

Það sem í fyrstu lítur út fyrir að vera slæm hugmynd þarf ekki endilega að vera það!

Ég hef starfað þó nokkuð með börn og unglinga, meðal annars var ég fenginn sem mótorhjólamaður og bifvélavirki til að setja af stað svokallaða Mótorsmiðju fyrir unglinga í Borgarnesi í maí 2002, en þá hafði bæjarapparatið loksins áttað sig á að þónokkra unglinga í Borgarnesi vantaði aðra afþreyingu en strákapörin sem þeir höfðu fram að því notað tíma sinn að miklu leyti í. Hafandi þá þegar töluverðan áhuga á sálfræði þá vissi ég að það væri frábær hugmynd, enda hafði verið rætt við strákana um hvað þeir myndu helst vilja gera þar sem önnur afþreying hentaði þeim ekki, og þetta vildu þeir. Ég hafði engan veginn tíma í þetta verkefni, en þegar ég sá að enginn annar vildi gefa sér tíma í þetta þá hreinlega varð ég að taka það að mér! Ég kom þessu sem sagt af stað og var með þetta námskeið fram á haustið tvisvar í viku í þrjá til fjóra tíma í senn. Og þarna sá ég svo skýrt hversu nauðsynlegt það er að hlusta á börn og unglinga varðandi hvað þau hafa áhuga á að gera! Þarna voru allir þessir strákar (það hefðu örugglega verið stelpur þarna líka ef þeim hefði verið boðið það, en þær voru bara ekki búnar að vera nógu erfiðar til þess að fá það boð, og mögulega orðnar of þreyttar á látunum í strákunum til að koma og taka þátt!) þarna fengu strákarnir mínir ýmsar hugmyndir, misgóðar samt. Ein hugmyndin var sú að ná bensíni af einum bílnum og fara út undir húsvegg og kveikja þar í því, en þar sem húsnæðið sem við vorum í var gamall bárujárnsklæddur timburhjallur út við höfnina, þá tók ég sem betur fer eftir því að það vantaði nokkra duglega stráka í húsið þegar ég leit upp frá einum, og fór að athuga með þá. Þarna voru undir vegg að mig minnir fimm af strákunum að hella niður bensíni alveg upp við vegginn, ég bað þá með rólegri röddu að bíða aðeins og koma með bensínið og kveikjarann út á höfnina. Þeir gerðu það og ég benti þeim á góðan öruggan stað til að hella bensíninu og sýndi þeim hvar væri svo best að geyma brúsann á meðan, svo fór ég inn og náði í slökkvitæki og notaði þetta tækifæri til að kenna þeim að slökkva eldinn með því og kveikja svo bara aftur nokkru sinnum. Þarna sá ég strax hvað það var tiltölulega auðvelt að snúa einhverju sem einhver hefði metið sem mjög neikvætt yfir í jákvæða kennslu sem þeim þótti öllum mjög áhugavert og skemmtilegt. Ég greip öll svona tækifæri til að leyfa þeim að njóta sín og hafa gaman og jákvætt andrúmsloft hjá okkur. Enda komu allir þessir strákar til mín á mismunandi tímum á árunum eftir þetta og þökkuðu mér fyrir hvað þetta hefði verið frábært og gert mikið fyrir þá, að þetta hafi komið seinna frá þeim er hluti af þeim hrósum sem ég hef fengið sem mér þykir vænst um…. Skítt með hrós fyrir að hafa útskrifast sem Bifvélavirki og Stúdent miðað við það! En takk samt þið sem hrósuðu mér þar líka ;)

ree


 
 
 

Comments


  • Facebook
  • Twitter
  • LinkedIn

©2021 by Sjalfstraust.is. Proudly created with Wix.com

bottom of page